Vegna fyrri færslu

Því miður gerðist það í kvöld að ég var blekktur, kannski af þeim sem að lét mig hafa link á viðkomandi DMCA tilkynningu sem Smáís átti að hafa sent. Kannski var sá sem lét mig fá linkinn blekktur. Sem stendur þá veit ég ekki hvort er. En til þess að koma í veg fyrir rangfærslur og hafa þetta sæmilega rétt, þá ákvað ég að eyða út bloggfærslunni og öllu sem henni tengdist til þess að koma í veg fyrir að fólk færi að vitna rangt í mig. Það er nefnilega það síðasta sem ég vil gera, að fólk hafi rangt eftir mér.

Mér þykir miður að ég skuli hafa haft rangt við í umræddri blogg-færslu (sem ég eyddi) og bið ég lesendur mína afsökunar á því. Ég vona bara að þetta gerist aldrei aftur.

Smáís fær hinsvegar enga afsökunarbeiðni frá mér, þeir eiga hana ekki skilið.

Jarðskjálftahrinan hjá Hveravöllum

Þeir jarðskjálftar sem hafa komið hjá Hveravöllum í dag hafa mælst mjög vel á þeim jarðskjálftamælum sem ég er með í gangi þessa stundina. Sem stendur hafa ekki komið margir jarðskjálftar, en þeir jarðskjálftar sem hafa komið hafa verið í stærri kantinum. En sá stærsti sem hefur komið fram í augnablikinu nær stærðinni ML4.4 (á ricther). Fastlega má reikna með því að þarna komi fleiri stórir jarðskjálftar, enda virðist þessi jarðskjálftahrina haga sér mjög undarlega miðað við jarðskjálfta sem verða við það að jarðskorpan brotnar á rekbeltinu. Ómögurlegt er að segja til um það hvort að þessir jarðskjálftar eru tengdir eldvirkni á svæðinu, en þarna er eldstöð og er því ekki hægt að útiloka slíkt. En sem stendur er ekkert sem bendir til þess að þarna sé að fara hefjast eldgos.

Tengist frétt: Jörð skelfur við Hveravelli

Jarðskjálfti uppá 4.4 á ricther hjá Hveravöllum

Samkvæmt algjörum frumniðurstöðum úr sjálfvirka mælakerfinu hjá Veðurstofunni þá varð jarðskjálfti uppá ML4.4 (á ricther) hjá Hveravöllum klukkan 15:31.

Jarðskjálftinn kom mjög greinilega fram á jarðskjálftaplottinu mínu hérna. Ég veit ekki hvort að þessi jarðskjálfti hafi fundist, en ég fann hann ekki og er ég staðsettur á Hvammstanga.

Jarðskjálfti uppá 3.8 á ricther hjá Hveravöllum

Samkvæmt sjálfvirku mælakerfi Veðurstofu Íslands þá varð jarðskjálfti uppá ML3.8 (á ricther) að stærð hjá Hveravöllum klukkan 14:13. Þessi jarðskjálfti hefur væntanlega ekki fundist vegna fjarlægðar frá byggð. Dýpi jarðskjálftans var rúmlega 1 km. Nokkrir forskjálftar komu fram á undan stóra jarðskjálftanum, reikna má með að það verði talsvert um eftirskjálfta í kjölfarið á þessum jarðskjálfta.

Jarðskjálftinn kemur vel fram á sjálfvirka mælaplottinu mínu, það er hægt að skoða hérna.