Óskynsamleg efnahagsstefna Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands rekur stefnu sem veldur því að hagvöxtur á Íslandi er lítill og eingöngu haldið upp með afskaplega óskynsamlegum aðferðum sem valda bólumyndun í hagkerfinu sem á endanum springa með tilheyrandi efnahagskreppu. Lærðu þessir menn ekkert í efnahagshruninu 2008?

Í þeirri stefnu sem Seðlabanki Íslands rekur er að halda launum á Íslandi lágum. Undir þeirri afsökun að hækkun launa valdi verðbólgu á Íslandi. Þetta er rangt að mínu áliti og stenst ekki skoðun, þar sem hækkun launa mun ekki valda verðbólgu. Hækkun á nauðsynjavöru gerir það hinsvegar og einnig óskynsamleg efnahagsstefna, eins og sú sem er rekin á Íslandi. Sú stefna að halda launum lágum hjá meirihluta almennings er eingöngu til þess fallin að viðhalda litlum hagvexti á Íslandi og verri lífsgæðum almennings. Sú fátæktarstefna sem er rekin á Íslandi verður að taka enda, þar sem hún einfaldlega gengur ekki lengur og hefur í raun aldrei virkað núna í marga áratugi.

Það eru til aðrar stefnur og betri til þess að hafa stjórn á Íslenskum efnahag. Hluti af þeirri stefnu væri að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna sem gjaldmiðil til þess að koma í veg fyrir öfgakennd áhrif þeirra sveiflu sem íslenska krónan hefur á íslenskan efnahag. Það er öryggi í stóru myntsvæði og í dag njóta íslendingar ekki neins öryggis á sínu örmyntsvæði sem íslenska krónan er, jafnvel þó svo að hún sé á bak við gjaldeyrishöft.