Listi Hannesar Hólmsteins

Það kom í ljós þann 24-Nóvember-2013 að Hannes Hólmsteinn heldur lista yfir fólk sem er ósammála honum. Þetta er svo sem ekkert nýtt á Íslandi, enda er líklegt að Hannes hafi lært þetta af Framsóknarflokknum sem var farinn að halda lista yfir fólk sem var ósammála flokknum talsvert fyrir efnahagshrunið árið 2008. Ástæðan fyrir þessum lista Hannesar er áhugaverðari. Ástæðan fyrir þessum lista Hannesar er náttúrulegt óþol íslenskra hægri manna fyrir gagnrýni og skoðunum fólks á því rugli sem frá þeim kemur. Þetta er búið að vera svona á Íslandi í nokkra áratugi núna og flestir voru orðnir samdauna þessum ritskoðunartilraunum. Alveg fram að efnahagshruninu árið 2008 og komandi árum, þá dró aðeins úr þessu. Sérstaklega eftir að Sjálfstæðisflokkurinn var í stjórnarandstöðu síðasta kjörtímabil.

Núna á hinsvegar að taka upp gamla ósiði, eyðileggja húsgögnin og helst allt heimilið í leiðinni. Núna á að tryggja að þeir sem ekki eru sammála Sjálfstæðisflokknum þegi og núna á að gera það skriflega og hefur Hannes Hólmsteinn verið fenginn í verkið. Það er ekki nóg með að allir þeir eru á móti skuli skrifaðir niður. Heldur er einnig á virkan hátt reynt að þagga niður í þeim sem skrifa á móti allri vitleysunni og ýmis vitleysa er talin upp til þess að réttlæta þetta allt saman hjá Hannesi.

Það er áhugavert að Hannes þykist starfa í „[…] Ég styðst við og starfa í voldugri og áhrifamikilli stjórnmálahefð, sem á rætur að rekja til þeirra Johns Lockes og Adams Smiths. Þessi hefð er miðlæg í vestrænum stjórnmálum.[…]“ [Hugmyndafræði Johns Lockes, hugmyndafræði Adam Smith, tengill #2]. Það virðist þó vera þannig að Hannes hefur litla hugmynd um hvaða hugmyndafræði þessir menn stunduðu á sínum tíma. Kemur lítið á óvart enda nennir Hannes ekki að kynna sér söguna og hugmyndafræðina sem er þarna á ferðinni. Það kemur mér lítið á óvart, enda virðist Hannes og samferðarmenn hans hafa lítinn áhuga á hugmyndafræðinni sem þeir þykjast boða. Þetta fólk hefur miklu meiri áhuga á því að hækka töluna á bankareikningum sínum heldur en að standa í einhverjum hugmyndafræðilegum vangaveltum um stöðu íslendinga og hag almennings á Íslandi. Slíkt er bara hentugir kosningafrasar og loforð sem hægt er að nota á almenning á Íslandi í hugum þessa fólks. Ég ætla ekki að nefna sjálfsblekkinguna sem er Hannes og fólkið sem hann umgengst lifir í, þessi sjálfsblekking útskýrir sig sjálf og er mjög augljós.