Íslendingar dæma sig til ævarandi fátæktar

Grunnur að hagsæld þjóða í hagkerfi heimsins eru viðskipti við aðrar þjóðir. Á þessu byggja mörg efnahags-bandalög í heiminum í dag. Enda er það svo að heimurinn er hægt og rólega að skiptast upp í efnahags-bandalög þjóða sem stunda viðskipti sín á milli og semja síðan sem ein heild við aðrar þjóðir eða önnur efnahags-bandalög í heiminum. Þessi bandalög eru eins misjöfn og þau eru mörg. Í Evrópu eru tvö slík bandalög til staðar. Það sem íslendingar tilheyra kallast EFTA og það sem 28 þjóðir eru í kallast Evrópusambandið í dag. Á Íslandi hefur alltaf verið barist gegn betri og sterkari tengslum Íslands við Evrópu af hálfu fólks sem er ekkert nema varðmenn kúgunar og verri lífskjara á Íslandi.
Það er ekki í fyrsta skipti sem Framsóknarflokkurinn stoppar aðild Íslands að Evrópusambandinu (þáverandi Kola og stálbandalag Evrópu) var það á árunum 1950 til 1960 þegar Framsóknarflokkurinn kom beint í veg fyrir aðildar umsókn Íslands að Evrópubandalaginu á þeim tíma. Síðan þá var málið í dvala til ársins 2009. Baráttan gegn EFTA er gott dæmi um slíkt á Íslandi, þá eins og í baráttunni gegn Evrópusambandinu í dag var talað um verra ástand [einnig hérna] við aðild. Jafnvel þó svo að raunveruleikinn hafi orðið allt annar. Slíkar fullyrðingar voru einnig hafðar uppi þegar aðild að Evrópska Efnahagssvæðinu var samþykkt á Alþingi árið 1993. EFTA aðild Íslands með EES samningnum hefur reynst íslendingum afskaplega vel. Enda hefur þetta gengið vel í því umhverfi sem var til staðar fyrir íslendinga að sinna sínum viðskiptum. Heimurinn hefur hinsvegar breyst hratt síðan stofnað var til EES og EFTA. Í dag eru báðir þessir samningar í raun úreltir og þjóna ekki hagsmunum almennings og varla að þeir þjóni hagsmunum fyrirtækja sem starfa innan þeirra.

Nauðsynlegt er fyrir íslendinga að ganga í Evrópusambandið til þess að tryggja áhrif sín og tryggja hagsmuni sína. Með því að draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka eru íslendingar eingöngu að tryggja varanlega fátækt íslensks almennings og fyrirtækja. Enda er ljóst að í núverandi stöðu mun EES samningurinn ekki halda. EFTA aðild Íslands mun ennfremur ekki halda vegna svipaðra ákvæða þar er varða fjármagnsflutninga til og frá Íslandi. Það er ekki víst að EFTA verði til staðar mikið lengur vegna þeirrar stöðu sem komin er upp í Sviss, en EFTA í dag er ákvæði um frjálst flæði fólks sem Sviss hefur nú hafnað í þjóðaratkvæði. Það kæmi mér ekki á óvart að EFTA einfaldlega hyrfi eftir 5 til 10 ár, jafnvel skemmri tíma ef þannig aðstæður skapast. Þeir stjórnmálaflokkar sem standa í dag gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu eru í raun að gera íslenskri þjóð gífurlegan óleik með þessari afstöðu sinni. Sá ó-leikur mun verða íslendingum mjög dýr til lengri tíma litið. Enda er hætta á algerri einangrun Íslands ef EFTA og EES hverfa úr samskiptum Íslands við Evrópu.

Það er ljóst að í núverandi stöðu mun hagvöxtur á Íslandi stoppa, hafi hann verið einhver fyrir utan vöxt í einkaneyslu íslendinga. Ljóst er að núna er að koma að mjög erfiðu tímabili í sögu íslensku þjóðarinnar. Tímabil sem mun einkennast af fátækt og miklu atvinnuleysi á Íslandi. Þetta er það sem íslendingar kusu yfir sig og þetta er það sem koma skal.