Uppruni núverandi laga um útlendinga á Íslandi

Lög um veru Útlendinga á Íslandi eiga sér frekar ógeðfellda sögu sem byggir á þeirri hugmyndafræði sem Björn Bjarnarsson fyrrverandi ráðherra stendur fyrir. Það er nefnilega þannig að hugmyndafræðin að íslensku útlendinga-lögum er sótt til Danmerkur og beint til stjórnmálaflokks í Danmörk sem heitir Danske Folkeparti sem byggir sína tilveru á hugsjónum rasista og útlendingahatri.

Sjálfstæðisflokkurinn átti ekki í neinum vandræðum með að taka þessa hugmyndafræði upp í heilu lagi árið 2002 og stendur ennþá fast við þessa hugmyndafræði og öllu sem henni fylgir. Útlendingalög í Danmörku eru þau ströngustu í allri Evrópu og á Íslandi er ástandið ekki mikið betra (það fer versnandi í Noregi). Ofan á þetta kemur síðan stjórnsýslubundinn rasismi hjá Útlendingastofnun Íslands varðandi afgreiðslu mála þeirra útlendinga og flóttamanna sem koma til Íslands. Jafnræðis fyrir lögum er ekki gætt eins og dæmin hafa sannað. Auk brota gegn sáttmálum og alþjóðlegum skyldum sem íslendingar hafa gengist undir á síðustu árum.

Annars eru svona lög, eins og lög um útlendinga á Íslandi og víðar dæmi um það hvernig fasistum tókst að koma því inn í umræðuna að fólk annarstaðar frá væri hættulegt og mundi jafnvel flytja í stórum hópum til viðkomandi ríkja. Ef Evrópusambandið og frjáls för fólks hefur sannað eitthvað, þá hefur það gjörsamlega afsannað slíka hugmyndafræði. Það er nauðsynlegt að gera lög um útlendinga frjálsari en nú er á Íslandi og víðar. Ég sé enga sérstaka hættu í því að útlendingar flytji til Íslands. Síðan er einnig nauðsynlegt að íslendingar fari að virða þær alþjóðlegu skuldbindingar sem varða flóttamenn sem koma til Íslands og hætti að dæma þá í fangelsi. Slíkt er nefnilega brot á flóttamanna-sáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Annað er skömm og ekki íslendingum til sóma.