Víkurfréttir ala á útlendingahatri með lélegri fréttamennsku

Í gær ólu Víkurfréttir á útlendingahatri með því að birta afskaplega lélega frétt um kynferðislega árás sem varð í strætisvagni í Reykjanesbæ. Enda var fréttin sem þeir birtu byggð á orðrómnum af Facebook og öðrum slíkum miðlum. Þetta olli því að ný-nasistar, útlendingahatar og annar slíkt fólk fór á fullt og er ennþá að, jafnvel þó svo að komið hafi fram í dag að afbrotamennirnir voru tveir 14 ára drengir (ósakhæfir vegna aldurs) sem höfðu komið með fjölskyldum sínum og sótt um hæli á Íslandi (atriði sem skiptir í reynd engu máli í samhenginu). Þessi frétt var síðan að einhverju leiti byggð á facebook orðrómum og fullyrðingum, sem reyndust síðan vera allir saman tómt bull og kjaftæði þegar lögreglan gaf út fréttatilkynningu í morgun um málið.

Útlendingahatar, ný-nasistar og annað slíkt pakk á Íslandi hefur undanfarin sólarhring verið að ausa skítnum úr sínum skálum með allskonar fullyrðingum um þetta mál sem eru og hafa alltaf verið byggðar á lygum um þetta mál. Það hinsvegar stoppar ekki útlendingahatara og aðra slíka að dreifa röngum upplýsingum um það sem gerðist og auka þannig hatrið gegn saklausum flóttamönnum og útlendingum sem koma til Íslands í leit að betra lífi. Þetta fólk sem hatar útlendinga og aðra sem eru ekki jafn fölir og þeir hafa einnig stundað árásir á Semu Erlu Sedar fyrir hennar vinnu í mannúðarmálum til þess að hjálpa flóttafólki sem kemur til Íslands. Ég vona að þetta fólk verði kært fyrir hatursumræðu og síðan fái það yfir sig kæru vegna ummæla sem það lét falla í garð Semu Erlu (það gæti hinsvegar ekki gerst, það verður bara að koma í ljós).

Það sem Víkurfréttir gerðu var langt frá því að vera góð fréttamennska og í reynd til skammar. Það er ekki að sjá að Víkurfréttir hafi beðist afsökunar á þessum fréttaflutningi, þeir hafa birt nýjar fréttir eftir tilkynningu lögreglunnar og látið það duga.