Úr stjórnsýsludómi Hæstaréttar Íslands

Hérna er sitthvað áhugavert úr dómi Hæstaréttar Íslands vegna Stjórnlagaþingsins sem átti að halda.

8. Skafti Harðarson kærir að talning atkvæða sé haldin annmörkum þar sem hún hafi farið fram í vélum sem enginn vissa sé fyrir hendi um að telji rétt. Til vara krefst hann þess að handvirk en ekki vélræn talning fari fram á ný þar sem kjósendur hafi enga tryggingu fyrir því að vélar þær, sem notaðar voru, hafi lesið rétt úr atkvæðum kjósenda.

Um 7. Í tilefni af kæru Óðins Sigþórssonar um að kjörbréf hafi verið gefin út til fulltrúa sem hafi ekki hlotið tilskilinn atkvæðafjölda eða svokallaðan sætishlut til þess að ná kosningu, tekur landskjörstjórn fram í greinargerð sinni 22. desember 2010 að í umræddum kosningum hafi verið beitt svonefndri forgangsröðunaraðferð (e. Single Transferable Vote, STV). Eftir þær breytingar sem gerðar hafi verið á lögunum í september 2010 hafi aðferðin verið efnislega samhljóða þeirri útgáfu STV – aðferðarinnar sem nefnd er á ensku Weighted Inclusive Gregory Method (WIGM), sem sé sú útgáfa sem algengust er og hafi t.d. verið tekin upp við kosningar til héraðsráða í Skotlandi 2007 (The Scottish Local Government Elections Order 2007 No. 42, http://www.legislation.gov.uk/ssi/2007/42/contents/made). Íslenska heitið forgangs­röðunar­aðferð sé full víðfeðmt og geti átt við fleiri tegundir aðferða. Verði hér því stuðst við nafngiftina STV-aðferð. Um talningu atkvæða og úthlutun sæta fari samkvæmt í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 90/2010. Orðrétt var þetta nánar útskýrt svo:

1. „Fyrst er sætishlutur ákveðinn, en hann er sú tala atkvæða sem frambjóðandi þarf í fyrstu að ná til þess verða úthlutað sæti. Í kosningum til stjórnlagaþings reiknaðist sætishluturinn: 3.167 atkvæði.

2. Því næst eru atkvæðin flokkuð eftir nöfnum frambjóðenda sem tilgreindir eru í 1. vali. Nái frambjóðandi sætishlutnum strax í upphafi er honum þegar úthlutað sæti, sbr. 5. tölul.

3. Í 6. tölul. er fjallað um færslu umframatkvæða þeirra sem ná kjöri samkvæmt 5. tölul. Atkvæði eru færð samkvæmt næsta tiltæka vali hvers einstaks kjósanda þeirra. Fært er það hlutfall hvers atkvæðis að eftir sitji þau atkvæðisbrot að samanlagt nægi þau nákvæmlega fyrir sætishlut. Atkvæði (eða atkvæðisbrot), sem ekki tekst að færa sakir skorts á nafni á viðkomandi seðli, eru lögð til hliðar sem ófæranleg.

4. Þegar ekki finnst lengur neinn frambjóðandi með atkvæðisgildi sem er jafnt eða hærra en sætishlutur er sá frambjóðandi sem nú hefur lægst atkvæðisgildi dæmdur úr leik. Atkvæðisgildi hans eru færð í heilu lagi samkvæmt næsta gilda vali á hverjum þessara seðla. Með gildu vali er átt við að frambjóðandi sem hefur verið valinn og hefur ekki verið dæmdur úr leik eða náð sætishlut.

5. Komist frambjóðandi yfir sætishlut eftir tilfærslu atkvæða skal honum jafnóðum úthlutað sæti og umframatkvæði hans færð, eins og fyrr segir.

6. Í 8. tölul. er fjallað um lok úthlutunar. Þar segir: „Beita skal ákvæðum 6. og 7. tölul. svo lengi sem við á en þó þannig að ákvæði 6. tölul. hafi ávallt forgang. Þegar tala þeirra frambjóðenda sem enn koma til álita að hljóta sæti er orðin jöfn tölu þeirra 25 sæta sem eftir er að ráðstafa skal sætunum úthlutað til þessara frambjóðenda án frekari útreikninga.““

VI.1

Í kæru Þorgríms S. Þorgrímssonar er að því fundið að kjörseðlar hafi verið auðkenndir með strikamerki og númeri á bakhlið. Upplýst er í bréfi starfsmanns verktaka landskjörstjórnar til ritara hennar 13. janúar 2011 að kjörseðlarnir hafi allir verið númeraðir með einkvæmu númeri, og hafi númer seðlanna byrjað á 100001 og endað á 378000. Í kæru Þorgríms kemur fram að kjörseðlunum hafi verið dreift til kjördeilda í samfelldri númeraröð og hafi eftir að kosningu lauk verið unnt að rekja úr hvaða kjördeild þeir komu. Kjörseðlar hafi einnig verið afhentir kjósendum í númeraröð. Kvaðst Þorgrímur vita til þess að í sumum kjördeildum hefðu kjörstjórnir við kosningar skráð nöfn kjósenda á lista jafnóðum og þeir kusu. Með slíkan lista í höndum og númeraröðina væri þannig hægt að rekja atkvæði til einstakra kjósenda. Þá er því haldið fram að heimild 2. mgr. 10. gr. laga nr. 90/2010 taki eingöngu til þess að heimilt hafi verið að strikamerkja kjörseðlana en ekki að númera þá.

Í lok 2. mgr. 10. gr. laga nr. 90/2010, eins og henni var breytt með 2. gr. laga nr. 120/2010, er tekið fram að á bakhlið kjörseðils komi auðkennistákn seðilsins. Í athugasemdum með 2. gr. frumvarps þess, sem varð að lögum nr. 120/2010, segir að í athugunum landskjörstjórnar á framkvæmd rafrænnar talningar, einkum á Englandi, Skotlandi og Írlandi, hafi komið fram að það sé forsenda slíkrar talningar að kjörseðillinn hafi sérstakt tákn eins og einnig er rakið í skýringum við 4. gr. frumvarpsins. Slíkt auðkenni sé bundið við seðilinn sjálfan og sé ekki rekjanlegt til kjósanda. Með ákvæðinu sé tekinn af allur vafi um heimildir til að auðkenna kjörseðla sérstaklega fyrir hina rafrænu talningu.

Það þarf einhver augljóslega að kæra þennan dóm Hæstaréttar Íslands til Héraðsdóms.

http://haestirettur.is/control/index?pid=1109