Tefja stjórnvöld IMF aðstoðina ?

Útskýringar ríkisstjórnarinnar af hverju IMF aðstoðin kemur ekki til gengur ekki upp. Ríkisstjórnin (Geir Haarde) hefur einnig komið með margar misvísandi útgáfur af því afhverju lánið frá IMF tefst svona. Þær geta ekki allar verið réttar, en þær geta allar verið rangar.

Mig fastlega grunar að ríkisstjórn Íslands hafi bara gefið út yfirlýsingu um lán frá IMF, en hafi síðan aðhafst ekkert meira í málinu. Þetta lítur allavegana þannig út. Það er mjög hentugt fyrir ríkisstjórnina að kenna Bretum og Hollendingum um tafir á málinu, þó svo að augljóst ætti að vera að þeir geta hvorki tafið málið hjá IMF eða stoppað það þar.

Samfylkingin tekur undir þetta, því að þau vita einfaldlega ekki betur. Það er einn maður sem heldur á öllum spilunum og það er Geir Haarde. Hann getur þessvegna komið með hvaða útskýringu sem er. Sem Samfylkingin kaupir síðan, vegna þess að hún virðist ekki hafa burði eða áhuga á því að kanna málið nánar sjálf. Sem eru stór mistök í sjálfu sér og það mun koma Samfylkingunni illa í framtíðinni.

Það er alveg augljóst hver ábyrgð Íslendinga er samkvæmt EES samningum. Íslenskum stjónvöldum ber að semja um þessi útibú, með því væri kannski hægt að færa hluta ábyrgðarinnar yfir á Bresk og Hollensk stjórnvöld. Því miður virðist vera afskaplega lítill áhugi á samningaleiðinni hjá ríkisstjórn Íslands. Það hentar þeim betur að blása út þjóðernisbólu í fjölmiðlum og kenna Bretum og Hollendingum um það sem aflaga hefur farið hérna á landi. Þjóðernisbólan mun springa fljótlega og þá getur Geir Haarde og Sjálfstæðisflokkurinn afskaplega lítið gert til þess að beina reiðinni annað.

Það er ekki bara bankakerfið sem er hrunið hérna á landi. Stjórnmálakerfi og valdakerfið hérna á landi er einnig að hruni komið vegna spillingar og óheiðarleika. Ég reikna með að næstu dagar verði örlagaríkir fyrir Íslendinga í stjórnmálum og efnahagsmálum. Þetta á einnig eftir að verða mjög dýrkeyptur lærdómur fyrir Íslendinga og mjög dýrt tímabil.

Ég vona þó að endurreisnin hefjist á því að Ísland sæki um í ESB og við sem þjóð getum farið að takast á við heiminn eins og hann er. Ekki eins og við viljum hafa hann.

Tengist frétt: Ólíklegt að Bretar komi – utanríkisráðuneytið sparar