Íslenska þjóðin siglir í strand

Íslenska þjóðin hefur siglt í strand með því að hafna þeim samningum um Icesave sem núna liggja fyrir. Það er því miður lítið hald í einhverjum skoðunum um hugsanlegan betri samning, sem þó er hvorki tilbúinn eða hefur verið skrifað undir. Það er ennfremur ekkert hald í afsökunum sem réttlæta það að segja nei. Afsakanir eins og kúgun, óréttlæti og fleira í þeim dúr eiga einfaldlega ekkert við, og hafa í raun aldrei gert.

Íslenska þjóðin er orðin jafn siðferðislega gjaldþrota og bankanir haustið 2008. Enda hefur íslenska þjóðin sýnt það og sannað að hún neitar að taka ábyrgð á gjörðum þeirra sem störfuðu í umboði þjóðarinnar, og ennfremur að íslenska þjóðin neitar að taka ábyrgð á sjálfri sér og þeim ákvörðunum sem hún tekur. Slíkt er auðvitað algert gjaldþrot þjóðar á siðferðislegum vettvangi. Það er ennfremur til skammar að íslenska þjóðin hefur samþykkt málflutning þeirra manna sem komu okkur í þessa stöðu til að byrja með, og komu að upphaflegum samningsdrögum að Icesave á sínum tíma.

Íslenska þjóðin sigldi í strand núna í dag, og er henni því engin vorkunn að því sem gerist næst. Það er búið að vara íslensku þjóðina við þeirri stefnu sem þjóðin var á, en engin tók mark á því vegna þjóðrembu, hroka og yfirgangs sem er algengur á Íslandi.

[Uppfært þann 7 Mars 2010 klukkan 01:16.]

One Reply to “Íslenska þjóðin siglir í strand”

  1. Því miður verð að taka undir þennan harðorða pistil þinn. Eina góða við þennan „furðugerning“ í dag var alla vega að núna þarf þjóðin loksins að bera sjálf ábyrgð á gjörðum sínum – sennilega kominn tími til. Mér finnst líka góður punkturinn þinn um siðferðislega ábyrgð okkar sem þjóðar, hlutur sem saknað mjög í umræðunni almennt fyrir og eftir hrun.

Lokað er fyrir athugasemdir.