Að flytja frá Íslandi – 1 hluti

Ég hef ákveðið að flytja frá Íslandi. Hvert förinni verður heitið er ekki alveg orðið ljóst ennþá. Eins og staðan þá er möguleiki á því að ég flytji til Danmerkur eða Bretlands. Mig grunar þó að Danmörk verði fyrir valinu á endanum, tíminn mun þó leiða það í ljós á endanum hvar ég enda.

Ástæður þess að ég flyt frá Íslandi eru mjög einfaldar og ekkert flóknar. Það er orðið ómögurlegt fyrir mig að búa á Íslandi vegna verðlags, verðbólgu og vaxta. Eins og staðan er núna á Íslandi, þá get ég gleymt því að kaupa mér hús. Þar sem ég álít það stórhættulegt að taka lán sem hækka af sjálfu sér, eins og húsnæðislán á Íslandi gera. Þegar ég tek lán, þá tek ég þau með það í huga að borga þau niður. Hverja einustu krónu, með þeim vöxtum sem umsamdir eru. Vextir á Íslandi eru ennfremur þannig að þeir eru ekki neinum manni bjóðandi. Verðbólgan er það ekki heldur neinum manni bjóðandi á Íslandi.

Hitt er svo annað mál að verðlag á Íslandi er ekki neinum manni bjóðandi, og það fer hratt hækkandi þessa dagna. Þó þessi verðhækkun sé ekki eins hröð og hún var í Janúar til Ágúst 2009, þegar verðlagshækkanir voru hreint og beint ekkert nema geðveikar á tímabili. Núna er svo komið að ég hef varla efni á því að kaupa í matinn yfir heilan mánuð, og ég er ekki maður sem fer illa með þá peninga sem ég fæ í hverjum mánuði. Enda fæ ég ekki mikla peninga vegna þeirrar örorku sem ég er með. Ég tek það fram að ég er á örorku vegna þess að ég er með Asperger heilkenni, og það er eitthvað sem ég fæddist með og þarf að lifa með á hverjum degi, og sem öryrki á Íslandi þá er staða mín veik og fer versnandi að mínu mati. Ég tek það fram að ég er með vægt asperger heilkenni og ég hef lært á ákveðna þætti þess, svo að ég virki í íslensku þjóðfélagi eins vel og hægt er.

Ég mun þó ekki flytja alveg strax frá Íslandi. Það mun taka mig væntanlega rúmlega tvö ár að safna upp í fjármuni til þess að flytja frá Íslandi eins og staðan er í dag. Ég reikna fastlega með því að sú dagsetning sem ég hef í huga standist að mestu leiti. Í dag reikna ég með því að flytja frá Íslandi árið 2012, væntanlega einhverntíman þá um sumarið. Á meðan ætla ég að nota tímann og vera í skóla og klára eins mikið nám og ég get, áður en ég flyt erlendis. Það er þó ljóst uppúr þessu, að þegar ég flyt erlendis þá mun ég ekkert hafa fyrir því að flytja aftur til Íslands á meðan ástandið á Íslandi er eins og það er í dag, og verður væntanlega í framtíðinni. Ef eitthvað er að marka hegðun íslendinga síðustu árin, þá mun þetta ástand ekkert breytast á næstunni, eða jafnvel næstu árum. Mín lífsskoðun er ennfremur sú að ég vil ekki taka þátt í samfélagi eins og það íslenska er orðið, en það er samfélag sem neitar að taka ábyrgð á sjálfum sér vegna hroka og yfirlætis gagnvart öðrum þjóðum í kringum okkur. Ég einfaldlega á ekki heima í slíku samfélagi, og mun aldrei eiga heima í svoleiðis samfélagi.

Þessi flutningur mun ekki hafa nein áhrif á mælingar mínar á jarðskjálftum, eða vöktun á eldfjöllum Íslands. Þetta er allt saman hlutir sem ég get fylgst með erlendis frá og gögnin frá jarðskjálftamælinum mínum get fengið í gegnum internetið, óháð því hvar ég er staðsettur í heiminum.

Þau lönd sem ég mun flytja til eru aðildar að ESB og hafa verið lengi, eins og sjá má hérna.

5 Replies to “Að flytja frá Íslandi – 1 hluti”

  1. Mæli með ESB löndunum, gangi þér sem allra best.

    Hvers vegna að berja hausnum við steininn? Ísland verður aldrei í ESB, sem betur fer, þannig að mönnum með ESB hjarta líður best „heima“ hjá sér.

  2. Ef íslendingar ganga ekki í ESB, þá mun ég hætta að hlusta á vælið í þeim. Mjög einföld niðurstaða hjá mér.

    Það mun ennfremur valda því að ég mun aldrei flytja aftur til Íslands, sem er smá möguleiki á ef Ísland gengur í ESB.

  3. Blessaður drífðu þig út. Það hafa allir gott af því að eiga heima í útlöndum, þótt ekki sé nema í smá tíma. Þá skilur maður nefninlega betur delluna sem grasserar heima sem og kjánaskapinn sem annar hver Íslendingur virðist sýktur af.
    Annars sakna ég bestu rakanna fyrir því að flytja til útlanda; Í útlöndum er víða að finna upplýst samfélög þar sem umræðan er á svo miklu, miklu hærra stigi en heima. Það er eiginlega ekki hægt að bera saman umræðumenninguna hérna úti og heima. Þetta er það sem mér finnst dýrmætast við að búa í útlöndum (Þýskalandi).

Lokað er fyrir athugasemdir.