Munu íslendingar sigra sjálfa sig á endanum

Íslenskir stjórnmálamenn eru þessa dagana mjög uppteknir við að reyna afskrifa efnahagshrunið á Íslandi, og síðan að reyna koma þeim undan sem báru ábyrgð á því hvernig efnahagshrunið var meðhöndlað. Enda gæti margt óþægilegt komið fram í vitnastúku, svo sem nokkur stór hneyksli, svindl, spilling og fleira í þeim dúr. Enda af nægu að taka á því sviði hjá íslendingum.

Það er ekki regla að ríki skulu vera til. Enda er það vel þekkt í sögunni að ríki hafi komið og farið. Bara á 20 öldinni þá hurfu mörg ríki í Evrópu og landamæri breyttust og hurfu jafnvel alveg. Á 21 öldinni hafa nokkur ríki orðið til og á sama tíma hafa önnur horfið. Það er ekkert sem segir að Lýðveldið Ísland muni verða til um alla framtíð. Sérstaklega ekki ef íslendingar eru ófærir um að taka á þeim málum sem upp koma. Þá sérstaklega þeim málum sem koma upp varðandi stjórn Íslands.

Sú krafa sjálfstæðisflokksins um að fella niður dómsmálið á hendur Geir Haarde er gott dæmi um mál sem er hættulegt lýðræðinu á Íslandi. Endalok þessa dómsmáls á hendur Geir Haarde mundi þýða að það yrði aldrei hægt að draga stjórnmálamenn til ábyrgðar á Íslandi fyrir afbrot í starfi. Enda gætu viðkomandi alltaf treyst á vernd flokksmanna sinna og annara stjórnmálaflokka ef út í það færi. Slíkt mundi grafa undan lýðræði á Íslandi. Núna á að reyna á þetta að hálfu sjálfstæðisflokksins, framsóknarflokksins og hluta af Vinstri Grænum og jafnvel einstaka þingmanni í Samfylkingunni. Slíkt er auðvitað til skammar og á ekki að lýðast.