Félagslíf og tilhugalíf einstaklinga með asperger

Eins og áður hefur komið fram hérna hjá mér áður. Þá er ég einstaklingur með Asperger heilkenni. Það að vera með Asperger heilkenni veldur ýmsum vandamálum í samskiptum mínum við fólk. Þessi vandamál eiga uppruna sinn í skilningsleysi á því hvernig samfélagið virkar oft á tíðum, og síðan hvernig samskipti milli fólks ganga fyrir sig almennt séð. Ég ætla að skipta þessari bloggfærslu upp í tvo hluta. Þar sem að skrifin núna snúast um hluti sem eru ólíkir, en engu að síður skyldir í sjálfu sér.

Félagslíf

Félagslíf einstaklinga með Asperger getur verið mjög snúið. Skrif mín um þetta miðast eingöngu við mína reynslu. Enda hef ég ekki neitt annað viðmið þegar það kemur að þessu. Hjá öðrum einstaklingum ráðast þessi samskipti eftir hversu sterkt asperger er hjá þeim, og síðan hvort að viðkomandi hafi mikin áhuga á því að stunda félagsleg samskipti. Það er nefnilega þannig með einstaklinga sem eru með asperger að þeir hafa ekkert alltaf áhuga á því að vera í samskiptum við fólk. Það á hinsvegar ekki við mig, og hefur í raun aldrei verið þannig. Félagsleg samskipti milli einstaklinga byggja að mestu leiti á óskrifuðum reglum. Þessar reglur eru stöðugt breytilegar og eru mismunandi milli hópa einstaklinga, og það eru jafnvel mismunandi óskrifaðar reglur hjá fólki eftir því hvort að tala saman úti í búð, eða jafnvel úti á götu. Þar sem að ég er með asperger þá hættir mér til þess að nota sömu reglunar við allar aðstæður. Alveg óháð því hvort að viðkomandi félagslegar reglur eiga við eða ekki. Þetta hefur valdið mér minniháttarvandræðum séð frá mér. Það er þó alveg hugsanlegt þessi tilfelli hjá mér hafi verið í raun mun vandræðalegri án þess að skildi það, eða einfaldlega uppgvötaði það. Það veldur einnig talsverðum vandræðum í samskiptum mínum við fólk að ég kann ekki, og er mjög klaufalegur að tjá mig með líkamanum. Enda er líkamstjáning eitthvað sem kemur skilaboðum til fólks í kringum mann. Það að þessi skilaboð komi ekki rétt frá manni, eða alls ekki hefur mikið að segja hverning manni gengur félagslega þar sem maður er staddur. Sú ákvörðun að hvorki drekka áfengi eða reykja hefur einnig gert mig talsvert einangraðan. Þar sem að áfengi er mikið notað sem félagslegt form á Íslandi milli einstaklinga. Það að fara út án þess að drekka virðist vera svo til ómögulegt á Íslandi svo vel sé. Ég allavegana endist ekki lengi á skemmtunum í dag þar sem áfengi er til staðar, og því fer ég fljótlega heim að gera eitthvað annað. Horfa á sjónvarpsþætti eða eitthvað álíka.

Þetta skilningsleysi mitt á félagslegum reglum hefur valdið því að ég hef einangrast mikið í gegnum tíðina. Eitthvað sem mér persónulega hefur fundist alveg hrikalega slæmt. Enda er ekkert hollt fyrir mig andlega að vera einn heilu dagana og vikunar ef til þess kemur. Þau ár sem ég bjó á Hvammstanga þá minnir mig að ég hafi yfirleitt aldrei fengið neina heimsókn sem heitið getur. Það kom fyrir að fólk leit inn til mín, og stoppaði stutt. Það voru þá helst ættingar. Ég get ekki sagt að ég eigi neina vini á Hvammstanga. Ég á kunningja og fólk sem ég get talað við úti á götu. Annað er það ekki. Þó bjó ég á Hvammstanga í heil 7 ár, eða frá árinu 2004 til ársins 2011. Mér þykir það afskaplega slæmt, og það í raun var og er mjög slæmt fyrir mig sérstaklega. Þar sem að einvera er ekki eitthvað sem mér þykir þægilegt eða gott. Jafnvel þó svo að einstaka sinnum vilji ég vera einn og einbeita mér að því verkefni sem ég hef áhuga á þann daginn eða vikuna. Skortur á félagslegum samskiptum við fólk gerir mig hinsvegar dapran, og áhugalausan á öllu mögulegu. Enda hef ég fundið það út að það hentar mér betur að búa í stærri bæjarfélögum heldur en minni.

Tilhugalíf

Ég er eins og flest fólk þegar það kemur að tilhugalífi. Það á ég við að ég vil eignast kærustu eins og flestir karlmenn á mínum aldri, og þetta hefur lengi verið löngun hjá mér. Þó er það þannig að vera með asperger veldur vandamálum hérna eins og annarstaðar þar sem félagsleg samskipti koma við sögu. Þetta þýðir þó ekki að einstaklingar með aspergers geti ekki náð sér í maka. Núna í dag er fullt af einstaklingum sem hafa náð sér í maka og hafa átt börn, og hafa það svona almennt bara gott í lífinu með sinni fjölskyldu. Það er ennfremur staðreynd að það eru margir einstaklingar einhleypir í dag. Bæði karlar og konur. Þetta fólk, ólíkt mér. Hefur verið í samböndum þar á undan. Hvort sem þau eru til lengri tíma eða styttri tíma. Þetta er eitthvað sem ég hef aldrei reynt, og hef enga reynslu af. Ég hef þó séð það er fullt af fólki, bæði karlmönnum og konum á mínum aldri sem er í svipuðum sporum og ég. Þó er væntanlega stór hluti þessara einstaklinga sem eru ekki með aspergers til þess að valda þeim vandræðum í samskiptum.

Mín helstu vandamál þegar það kemur að nánum samskiptum er það að ég er algerlega blindur á þau merki sem fólk notar í nánum samskiptum. Ef að asperger kemur einhverstaðar illa niður á mér. Þá er það þarna. Mér er það gjörsamlega ómögulegt að sjá þessi merki. Vegna þess að ég virðist hreinlega vera þannig tengdur að ég sé ekki þessi merki. Jafnvel þó svo að þau standi fyrir framan mig í bókstaflegri merkinu. Þetta hefur líklega valdið því að einhver tækifæri hafa hreinlega labbað frá mér, þá án þess að ég fattaði það. Ég get lítið gert til þess að laga þetta. Ég hef þó reynt að læra einhver af þessum merkjum með því að lesa mig til, en það segir þó bara innan við hálfa söguna. Varla það ef útí það er farið. Þessi skortur hjá mér á skilningi pirrar mig oft mjög mikið. Enda er þetta í raun ekkert nema blinda á félagsleg samskipti milli kynjana, og það að sjá þessi merki ekki finnst mér vera mjög slæmt.

Þar sem ég skil ekki þau merki sem fólk í makaleit gefur úti á lífinu (þar sem atburðarrásin getur verið mjög hröð). Þá ætti það lítið að koma á óvart að ég kann ekki, og mun hugsanlega aldrei getað komið slíkum merkjum frá mér sjálfur. Þar sem þessi blinda er tvíhliða, en ekki bara einhliða eins og halda mætti. Þannig að þegar ég hef áhuga á einhverri stelpu. Þá er mér gjörsamlega ómögulegt að koma upplýsingum um þann áhuga áfram með líkamstjáninu, eða öðrum hefðbundum leiðum. Margir nota áfengi til þess að komast yfir þennan þröskuld. Hinsvegar drekk ég ekki áfengi, og hef ekki áhuga á því. Síðan ákvað ég að bæta þeirri reglu við að ég fer ekki heim með fullum stelpum. Þar sem ég komst að þeirri niðurstöðu að slíkt væru meiri vandamál en ég kærði mig um. Þar sem ég hvorki kann almennilega að lesa þessi merki frá stelpum, eða senda slík merki sjálfur. þá hef ég einfaldlega ákveðið að spurja beint út viðkomandi beint út. Niðurstaðan í upphafi af því var ekkert glæsileg, enda hef ég fengið 100% nei hingað til. Þannig að ég hef breytt aðferðinni aðeins, og tala núna þess í stað lengur við viðkomandi áður en ég læt flakka. Þetta gefur mér einnig tíma til þess að komast að því hvort að einhver áhugi er til staðar eða ekki. Hingað til hinsvegar þá veit ég ekki um neina konu á mínum aldri eða öðrum sem hefur áhuga á mér fyrir það sem ég er. Þar sem ég er orðin hinsvegar mjög góður í að taka höfnun. Þá hef ég ákveðið það að ef ég fæ höfnun, hversu erfið sem hún getur verið. Þá haldi ég bara áfram, enda er þarna fleira fólk

Enda má ljóst vera að ég mun ekki breytast, og það er ekki hægt að neyða fólk til þess að breytast. Enda er það nú bara þannig að fólk breytist ekki svo einfaldlega, og alls ekki á einni nóttu.

Þau vandamál sem ég á við hérna er ekki eitthvað sem ég get þjálfað í burtu. Þetta er nefnilega ekki eins og að læra að teikna. Þetta er ástand sem er harðtengt inn í heilanum á mér, og fátt ef ekki neitt fær því breytt. Þó svo að heilinn í okkur öllum sé ekki settur endanlega í stein þá breytist hann mjög lítið yfir lífið. Nema þá helst að heilinn verði fyrir skaða af einhverjum ástæðum. Í flestum tilfellum þá gerist það. Reynsla er eitthvað sem er lærist með tímanum. Ég læri af reynslunni, en þar sem ég er félagslega blindur. Þá mun það ekki breytast neitt. Ekkert frekar en sú staðreynd að ég get ekki reiknað tölur í stærfræði vegna hugsanlegar talnablindu sem ég er líklega með.

3 Replies to “Félagslíf og tilhugalíf einstaklinga með asperger”

  1. Áhugaverð lesning, takk fyrir að deila með okkur. Ég vona að makaleitin eigi eftir að ganga betur, gott að þú skulir ekki gefast upp þrátt fyrir höfnun.

  2. Mjög áhugavert!.. Gaman að fá örlitla innsýn inní þennan sjúkdóm.

Lokað er fyrir athugasemdir.