Vigdís Hauksdóttir (Framsóknarflokki) og 19 öldin

Það er margt undarlegt sem er að gerast í Framsóknarflokknunum. Þeir eru t.d á móti almenningssamgöngum, og finnst það vera voðalega 19 öldin að þurfa taka strætó. Hvað þá ef fólk þurfi nú að ganga eða hjóla. Það er ekki nema von að þessi stjórnmálaflokkur sé talsvert úr takti við samfélagið á Íslandi.

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það setur að manni smáhroll eftir ræðu hæstv. innanríkisráðherra, vegna þess að hér lýsir hann þeim markmiðum ríkisstjórnarinnar að beita sér fyrir því að lækka kostnað heimilanna vegna samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef kallað þetta verkefni í gríni „Allir í strætó“-verkefnið, en nú er hæstv. ráðherra farinn að blanda líka saman við þetta fótgangandi fólki og hjólreiðum, að allir eigi að fara að ferðast eins og fólk gerði fyrir þarsíðustu aldamót. En þetta er víst stefna Vinstri grænna.
Hæstv. ráðherra er afar undrandi á því að þessi þáttur sé dýr í heimilishaldinu. Ráðherrann ætti kannski ekki að vera svo undrandi vegna þess að ríkisstjórnin hefur lagt slíkar álögur á eldsneyti að annað eins þekkist varla. Þetta hefur hin svokallaða velferðarvinstristjórn hér á landi ásamt samfylkingarmeirihlutanum sem situr í borginni ákveðið.
Frú forseti. Þetta er fullkomin forræðishyggja, og að við höfuðborgarbúar skulum sæta þessum niðurskurði í samgöngumálum er hneyksli. Það er hneyksli, eins og fram kom í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem hóf umræðuna, að einungis 1% af vegafé sé útdeilt til höfuðborgarsvæðisins. Hvers eigum við að gjalda, segi ég á ný?
Ég vil einnig benda á að hjá Almannavörnum hefur farið fram umræða um það hvað gerist á höfuðborgarsvæðinu ef það færi að gjósa í Bláfjöllum eða úti á Reykjanesi. Við Reykvíkingar höfum eina leið út úr Reykjavík landleiðina, það er Ártúnsbrekkan, (Gripið fram í: Og Reykjavíkurflugvöllur.) og það er allt og sumt. Hv. þingmaður, það er ekki flogið þegar eldgos (Forseti hringir.) er yfirvofandi eða í gangi. Ég hvet því hæstv. ráðherra til að taka þessa stefnu til endurskoðunar.

Tekið af vef Alþingis hérna.

Hérna er hægt að hlusta á þetta. Hérna er hægt að horfa á þessa ræðu.