Ritskoðun Ögmundar á internetinu

Innanríkisráðherra á Íslandi boðar stórtæka ritskoðun á internetinu. Þessi ritskoðun er til þess að vernda fólk gegn klámi, eða svo segir Ögmundur. Útskýring Ögmundar er auðvitað haugalygi og þvæla. Enda er það svo að það þarf ekkert að vernda fullorðið fólk gegn klámi. Það er fullkomnlega fært um að stjórna þessu sjálft. Það þarf heldur ekki að vernda börn gegn klámi. Þau komast í það hvort alveg óháð því sem fullorðið fólk reynir að stoppa það eða ekki. Enda er tölvuþekking margra krakka í dag margföld á við tölvuþekkingu foreldra þeirra.

Ögmundur notar þekktar rökvillur til þess að réttlæta þessa ritskoðun sem hann leggur til.

Margir verða nú til þess að taka upp hagsmunagæslu fyrir klámiðnaðinn. Flestir gera það undir formerkjum tjáningarfrelsis. Í gær skýrði ég frá því að ég hefði falið refsiréttarnefnd að semja frumvarp sem skilgreini klám nánar en nú er gert í almennum hegningarlögum en jafnframt yrði settur á laggirnar starfshópur sem hefði það verkefni að korleggja úrræði fyrir lögreglu að framfylgja lögum – slík kortlaggning ætti ennfremur að ná til kláms á netinu.

[…]

Þetta er kjaftæði. Ég hef engra hagsmuna að gæta fyrir klámiðnaðinn. Enda starfa ég ekki í honum og nýt engra hagsmuna þar. Það sem skiptir mig hinsvegar máli er tjáningarfrelsi. Enda lít ég svo að tjáningarfrelsi sé ekki eitthvað sem hægt er að semja um. Það nær til klámefnis, þar sem fullorðið fólk tekur þátt í því af fúsum og frjálsum vilja (jafnvel gegn kaupi). Slíkt er ekki vandamál í mínum huga. Enda er þetta ekki glæpastarfsemi að neinum toga þegar þetta er gert á löglegan og skipulagðan hátt.

[…]

Á síðasta ári fengum við heimsókn bandarískrar fræðikonu Gail Dines sem flutti fyrirlestur um klámvæðingu netsins og hvernig fólk væri misnotað þar á hrikalegan hátt í gróðaskyni. (Hér að neðan er slóð þar sem nálgast má fyrirlesturinn.) Bandaríska fræðikonan lýsti því vel hvernig þessu efni væri síðan þröngvað inn á samfélögin þar sem ungviðið ælist upp við ofbeldisklám sem kynfræðslu. Hér á landi höfðu fagaðilar í málaflokknum lýst áhyggjum sínum af tengslum kláms og kynferðisbrota.

[…]

Gail Dines er ekki fræðikona. Þetta er hræðsluáróðursmanneskja sem aðhyllist trúaröfgar, ritskoðun og fasíska þjóðfélagsskipan. Hægt er að misnota fólk í gróðaskyni allstaðar. Í öllum stéttum samfélagsins. Þó er yfirleitt ekki hlaupið til og farið að banna umræddar starfstéttir þó svo að sé verið að níðast á fólki. Yfirleitt eru umræddir níðingar handteknir og dæmir fyrir brot sín. Þetta er útskýring sem á ekki við nein rök að styðjast og hefur engan grundvöll í raunveruleikanum.

[…]

Viljum við þetta? Er það svona sem fólk vill skilgreina frelsið? Getur verið að fólk vilji í það minnsta ekki ræða þetta? Og þá einnig leiðir til úrbóta? Eða vilja menn ekki umræðuna? Vilja menn kannski banna hana? Gera lítið úr þeim sem vilja taka þessa umræðu og gera þeim upp skoðanir? Var einhver að tala um ritskoðun – eða þöggun?

[…]

Ögmundur Jónassonar þann 23.01.2012.

Ögmundur er hérna að snúa útúr. Enda er þetta svar hans ekkert nema útúr snúningar og tóm þvæla. Það sem Ögmundur leggur til er ritskoðun á internetinu. Alveg eins og klám er núna ritskoðað á Íslandi samkvæmt 210 grein almennra hegningarlaga. Þar sem sala á klámefni varðar allt að fangelsi og sektum. Hérna er um að ræða blöð, dvd myndir og slíkt. Sem betur fer þá er þessi lagabókstafur (er varðar heilbrigt og eðlilegt klám) dauður í dag og hefur aldrei verið framfylgt.

Gott dæmi um vitleysuna í Ögmundi er að hann hélt þessu hérna fram í gær samkvæmt frétt Morgunblaðsins.

[…]

Hann kallar eftir yfirvegaðri umræðu um málið. „Ef ekki má ræða bann við ofbeldisklámi sem öllum ber saman um að hafi mjög skaðleg áhrif á ungmenni og geti skýrt tíðni ofbeldisglæpa þá er illa fyrir okkur komið,“ segir Ögmundur.

Hann vill að áhrif kláms séu kortlögð. „Við erum að tala um mjög áganga aðila sem þröngva sér inn á samfélögin. Ábyrg stjórnvöld hljóta að vilja kortleggja þessi efni. Ég vil fá viti borna umræðu um það hvernig bregðast eigi við þessu,“ segir Ögmundur.

[…]

Áhrif kláms hafa verið kortlögð. Niðurstaðan varð sú að klám hefur engin áhrif til eða frá á ofbeldistíðni eða ofbeldisglæpi. Aftur á móti hefur komið í ljós að blý í bensíni hefur áhrif á tíðni ofbeldisglæpa. Sem betur fer er búinn að banna blý í bensíni með þeim beinu afleiðingum að ofbeldisglæpum hefur fækkað að sama skapi. Enda er blý í bensínu afskaplega slæmt fyrir umhverfið. Alveg ólíkt klámi. Þar sem rannsóknir hafa sýnt fram á það að konur sem vinna í klámi hafa betri andlega heilsu heldur og hafa betri lífsgæði heldur en aðrar konur. Þannig að þessi fullyrðing Ögmundar um skaðleg áhrif kláms eru ekki til staðar og hafa væntanlega aldrei verið til staðar.

Síðan er það staðreynd að klám hefur verið löglegt í Danmörku síðan árið 1969. Engin af þeim áhrifum sem Ögmundur talar um til þess að réttlæta þessa skoðun sína á klámi hefur komið fram í Danmörku á þessum tíma.

Hvað Ögmund varðar. Þá er Ögmundur að reyna ritskoða internetið. Slíkt er skerðing á frelsi fólks. Skerðing á frelsi fólks er ekki eitthvað sem hægt er að sætta sig við. Því er ekki hægt að sætta sig við þetta embættisverk Ögmundar. Hvorki núna eða í framtíðinni.

Bloggfærsla uppfærð klukkan 18:07 UTC þann 23.01.2013.