Útsendingar Omega/The Gospel Channel og Útvarps Sögu á að stöðva á tafar

Á Íslandi er rekin sjónvarpsstöð sem hefur þann eina tilgang að senda út mannhatur og öfgar. Þessi stöð heitir Omega og boðar þar út öfgafulla kristni allan sólarhringinn, helst er um að ræða bandaríska evangelíska presta sem messa yfir stórum mannfjölda (þeir eiga einkaþotur og lifa á stórum eignum) um hvað má gera og hvað má ekki gera í nafni trúarinnar (kristni).

Eigendur og stjórendur Omega hafa hinsvegar ekki látið Ísland nægja sér, heldur er þetta efni einnig sent út yfir Skandinavíu (0,8W) og Bretland (28,2E). Þetta er sent í opinni dagskrá, þannig að reikna má með að áhorfendahópur Omega, sem kallast The Gospel Channel á ensku telji í hundruðum þúsunda, kannski milljón eða tveim. Ég hef engar tölur um áhorf á þessa öfgafullu kristni sjónvarpsstöð en ljóst er að það er talsvert. Síðan er The Gospel Channel einnig send út á internetinu á Íslandi fyrir enskumælandi áhorfendur.


Útbreiðsla Omega/The Gospel Channel eins og hún er skráð hjá Lyngsat. Hérna er listi yfir sjónvarpsstöðvar sem hægt er að ná ókeypis frá Íslandi.

Samkvæmt skýrslu Council of Europe um Omega og Útvarp Sögu þá eru þessir tveir fjölmiðlar að breiða út hatursboðskap gegn flóttamönnum og fólki af öðrum trúarbrögðum og með annað litarhaft en íslendingar. Um þetta hefur aðeins verið fjallað í fjölmiðlum á Íslandi eins og sjá má hérna. Umfjöllunin er samt mjög lítil og þessir fjölmiðlar (Omega/The Gospel Channel og Útvarp Saga) eru ennþá starfandi á Íslandi og það er til skammar. Íslenskum yfirvöldum ber að loka Omega/The Gospel Channel og Útvarpi Sögu í samræmi við lagaheimildir á Íslandi og í samræmi við alþjóðlega sáttmála sem íslendingar hafa skrifað undir, eins og kemur skýr fram á vefsíðu CoE, þá hefur hatursumræða og útbreiðsla ekkert með tjáningarfrelsi að gera.

Íslensku fjarskiptafyrirtækin (Síminn, Vodafone, Nova og fleiri aðilar) geta byrjað á því að neita að bera merki Omega og Útvarps Sögu um sín dreifkerfi á Íslandi. Það mundi koma í veg fyrir stóran hluta af útbreiðslu þessara stöðva á Íslandi. Þar sem gervihnattaútsending The Gospel Channel kemur frá Íslandi, þá fellur slíkt undir valdsvið fjölmiðlanefndar og Póst og Fjarskiptastofnunar. Það er minna hægt að gera varðandi internet útsendingar eins og stendur, nema þá helst að lögbann sé sett á útsendingar þessara stöðva yfir internetið. Slíkt krefst dómsmáls og ég efast um að slíkt verði gert eins og málin standa í dag.