Skuldafangelsi verðtryggingarinnar

Á Íslandi er ósýnilegt fangelsi, þetta fangelsi er í peningamálum fólks. Sérstaklega fólks sem reynir að kaupa sér íbúðarhúsnæði. Þetta fangelsi lýsir sér á þann hátt að fólk getur ekki borgað niður lánin sín. Upphaf þessa fangelsis má rekja til skyndilausna á 8 og 9 áratug síðustu aldar. Á þessum tíma var verðtryggðu launa og skuldakerfi komið á í upphafi. Síðan gerðist það að verðtrygging launa var felld út og verðtryggingu skulda var haldið eftir. Við þann gjörning var skapað ósamræmi í launum fólks og skuldum hinsvegar.

Þessi aðgerð hafði einnig þau áhrif að fólk getur ekki borgað lánin sín upp, vegna þess að þau hækka stöðugt. Bæði höfuðstóllinn og mánaðarleg greiðsla. Gallin er að það er ekki hægt að afnema þetta kerfi eins og staðan er í dag, þar sem að sagan kennir okkur að Íslenskt efnahagslíf er of óstöðugt til þess að getað viðhaldið óverðtryggðu lánakerfi hérna á landi. Hvað er þá til ráða gætu margir verið að velta fyrir sér.

Hagstæðasta lausnin á þessu vandamáli Íslendinga er innganga í ESB og gera hagkerfi Íslands hluta af stærri heild, þá efnahagskerfi þeirra 27 aðildarríkja ESB. Íslendingar eiga þá að leggja sérstaka áherslu að taka upp evruna sem fyrst eftir inngöngu í ESB. Lágmarkstími fyrir upptöku evru, eftir að ríki hefur gengið í ESB er tvö ár.

Ef Íslendingar vilja einhverntímann losna úr þessu skuldafangelsi, þá er eina ráðið að gera efnahagskerfi Íslendinga að stærri heild. Skynsamasta leiðin til þess er að sækja um aðild að ESB og ganga í sambandið eins fljótt og hægt er.

Leiðin til þess að losna við IMF er með aðild Íslands að ESB

Samkvæmt fréttum, þá er IMF jafn slæmt og það hefur alltaf verið. Þar sem þeir taka rangar ákvarðanir og valda löndum meira tjóni, í staðinn fyrir að hjálpa þeim eins og tilgangurinn á að vera.

Ef Íslendingar vilja losna við IMF fljótt og örugglega, þá er besta leiðin að sækja um aðild að ESB, og upp úr því að ganga í ESB eins fljótt og hægt er. Með því að gera þetta, þá er hægt að skapa traustan grunn og losa sig síðan við IMF þegar núverandi samningstíma við þá líkur.

Ef þetta er ekki gert, þá er víst að Íslendingar sitji uppi með IMF næstu áratugina á meðan það er verið að laga til í fjármálum Íslands.

Lygar Bændablaðsins um ESB

Sérhagsmunasamtök Bænda, sem kallast í daglegu tali Bændasamtökin hafa lýst sig andsnúin inngöngu Íslands í ESB. Eins og venjulega, þá eru ástæðurnar fyrir andstöðunni við inngöngu í ESB frekar óljósar og erfitt að henda reiður á þær. Þó virðist andstaða bænda vera á svipuðum grunni og þegar andstaðan við EES samninginn var sem mest.

Í fjölmiðlum hefur komið fram að bændur telji sig hafa aðgang að innri markaði ESB með sínar vörur, þá í gegnum EES samninginn. Þetta er ekki rétt, hið rétta er að EES samningurinn fjallar ekki um landbúnaðarvörur eða sjávarútvegsvörur. Vegna þessa, þá hafa Íslenskir bændur nánast ekki nein markaðstækifæri á markaði ESB ríkjanna. Þetta breytist auðvitað ef við göngum inn í ESB. Þá opnast markaður 497 milljóna manna fyrir Íslenskar landbúnaðarvörur. Rekstrarskilyrði Íslenskra bænda munu einnig batna við inngöngu í ESB. Vegna þess að efnahagskerfi Íslendinga mun verða stöðugra og bændur losna við verðtryggð lán sem eru allt að drepa hjá þeim.

Í Bændablaðinu er varað við skrifræði vegna inngöngu í ESB. Þessi fullyrðing er að mínu mati röng, í dag eru Íslenskir bændur á mjög svipuðu stigi hvað skriffinnsku varðar og aðrar þjóðir í evrópu. Hjá ESB er átak í gangi til þess að draga út skriffinnsku og spara peninga í leiðinni. Í dag hefur ESB tekist að draga úr skriffinnsku um 25% og þeir stefna á að draga meira úr skriffinnsku á næstunni.

Í greinum Bændablaðsins er oft haldið eintómri þvælu um ESB, og Bændablaðið virðist hafa gert sérstaklega út á það að finna bændur sem eru á móti ESB. Sérstaklega þá sem eru frá Finnlandi og öðrum ríkjum. Allt til þess að búa til eins neikvæða mynd af ESB og hægt er. Það eru örugglega gallar við landbúnaðarstefnu ESB, en það eru líka gallar við landbúnaðarstefnu Íslands. Þegar bændur eru óánægðir með eitthvað í landbúnaðarstefnu Íslands, þá reyna þeir að fá því breytt. Sama gildir um landbúnaðarstefnu ESB, ef bændur í ESB ríkjum eru óánægðir með eitthvað sem er að finna í landbúnaðarstefnu ESB, þá reyna þeir að fá því breytt. Við inngöngu í ESB, þá munu Íslenskir bændur getað haft áhrif á stefnu ESB í landbúnaðarmálum eins og allir aðrir bændur innan ESB.

Það er einnig staðreynd að breytingar á alþjóðasamningum (doha viðræðunar), þá munu Íslenskir bændur finna fyrir áhrifum landbúnaðarstefnu ESB fyrr en seinna. Það er því nauðsynlegt fyrir Íslendinga og Íslenska bændur að ganga í ESB, svo að hægt sé að hafa áhrif á þessi málefni í krafti aðildarinnar í ESB. Það er staðreynd að Íslendingar einir og sér munu ekki geta haft mikil áhrif á alþjóðaviðræður eins og doha viðræðunar.

Íslenskir bændur eiga að styðja aðild að ESB til þess að geta haft áhrif á hagsmunamál sín, ekki bara á Íslandi. Heldur á hinum alþjóðlega markaði. Sérstaklega ef Íslenskir bændur vilja verða útflutningsgrein á Íslandi.

Það er staðreynd að Íslenskir bændur standa ekki vel í dag. Ég er þess fullviss að staða Íslenskra bænda mun stórbatna við inngöngu í ESB og það er ekkert að óttast í þeim efnum.

Goðsögnin um atvinnuleysið og ESB

Andstæðingar ESB halda áfram að bulla um atvinnuleysið og ESB. Þó svo að það sé margoft sé búið að leiðrétta vitleysuna sem kemur frá þeim um atvinnumál Íslendinga og hvað það þýðir ef við gögnum inn í ESB.

Staðreyndin er að það mun ekki gerast neitt, enda eru Íslendingar búnir að taka upp atvinnulöggjöf ESB eins og hún leggur sig.

EVRÓPUSAMBANDIÐ OG ATVINNULEYSI

[…]

Aðild að Evrópusambandinu eitt og sér hefur ekki áhrif á atvinnustig á Íslandi. Fyrir því eru tvær megin ástæður:

Í fyrsta lagi vegna þess að ekki er til neitt samræmt atvinnustig í ESB, til að mynda [er] viðvarandi atvinnuleysi á Spáni og í Frakklandi en skortur á vinnufúsum höndum í Hollandi og Lúxemborg svo dæmi sé tekið.

Í öðru lagi vegna þess að Ísland er nú þegar virkur þátttakandi á innri markaði ESB í gegnum EES-samninginn og áhrif ESB-aðildar á vinnumarkað [eru] nú þegar komin fram hér á landi.

Evrópusambandsaðild eykur því ekki atvinnuleysi, – fremur en að við hana hækki hitastig á Fróni, jafnvel þótt meðahitastig í ESB sé mun hærra en hér.

Á hinn bóginn; ef Ísland myndi einnig taka upp evru, þá þarf að vera hægt að mæta áföllum í efnahagslífinu með nafnlaunalækkunum í stað þess að færa raunlaun niður í gegnum verðbólgu eins og jafnan hefur verið á Íslandi.

Án svoleiðis sveigjanleika, að geta lækkað nafnlaun í frjálsum samningum á vinnumarkaði, gæti evran mögulega haft í för með sér aukið atvinnuleysi.

En þá er líka við lélega stjórnmálamenn að sakast, en ekki gjaldmiðilinn, – sem ætti samkvæmt reynslu annarra ríkja að auka til muna aga í innlendri hagstjórn.

– Eiríkur Bergmann

[…]

Svona eru staðreyndir málsins. Sama hvað andstæðingar ESB bulla út í loftið.

Norræn velferð er í ESB

Ég veit ekki hvort að Vinstri Grænir hafa tekið eftir því, en norræn velferð er í ESB. Flest öll norðurlöndin eru nú þegar í ESB, þessi lönd eru Danmörk, Svíþjóð og Finnland. Noregur er ekki í ESB, en hefur þó sótt nokkrum sinnum um aðild að sambandinu.

Íslendingar eru ekki í ESB og hafa aldrei sótt um aðild. Þar skerum við okkur úr við hin norðurlödin, við höfum aldrei sótt um aðild að ESB. Af þeim orsökum, þá vita Íslendingar ekki hvað er í boði fyrir þá.

Það er eitt sem Vinstri Grænir athuga ekki, það er engin velferð í að lifa í fátækt. Það er nefnilega það sem mun gerast ef Íslendingar ganga ekki í ESB. Tilraunir Vinstri Græna til þess að koma Íslandi úr EES samningum eru ekki til þess fallnar að auka hagsæld á Íslandi. Hvorki til lengri eða skemmri tíma.

Heimurinn hefur farið minnkandi undanfarna áratugi. Útlendingafælni og fordómar Vinstri Grænna í garð ESB og annarar alþjóðasamvinnu er til háborinnar skammar. Mitt álit er að stjórnmálaflokkar sem haga sér eins og Vinstri Grænir eigi ekki að fá að þrífast á Íslandi, enda er hagsmunum Íslendinga best borgið með því að taka þátt í samvinnu norðurlandanna og evrópulandanna í gegnum ESB.

Ég hvet því alla til þess að kjósa Samfylkinguna til þess að tryggja aðildarviðræður við ESB. Ég tek það fram að ég er Samfylkingunni og ég er búinn að kjósa þá.