Jarðskjálftahrina norður af Kolbeinsey

Í gær (22-Maí-2019) varð jarðskjálfti með stærðina 3,4 klukkan 15:47 rúmlega 12 km norður af Kolbeinsey. Þessi jarðskjálfti var hluti af lítilli jarðskjálftahrinu á þessu svæði. Vegna fjarlægðar frá landi og næstu eyju sem er í byggð þá fannst þessi jarðskjálfti ekki.


Jarðskjálftahrinan norður af Kolbeinsey (græna stjarnan norður af Íslandi). Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Jarðskjálftahrinur eru mjög algengar á þessu svæði og það er hugsanlegt að þarna muni verða frekari jarðskjálftavirkni á næstunni. Þetta svæði er ekki hluti af Tjörnesbrotabeltinu en tengist því sunnan við það svæði þar sem þessi jarðskjálftahrina átti sér stað í gær.

Jarðskjálftahrina 88 til 90 km norður af Kolbeinsey í gær (8-September-2018)

Í gær (8-September-2018) varð kröftug jarðskjálftahrina 88 til 90 km norður af Kolbeinsey. Vegna fjarlægðar frá SIL mælanetinu þá mældust ekki nærri því allir þeir jarðskjálftar sem líklega urðu þarna. Stærsti jarðskjálftinn sem mældist var með stærðina 3,3. Það urðu samtals tíu jarðskjálftar sem voru stærri en 3,0 að stærð.


Jarðskjálftavirknin norður af Kolbeinsey. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Rúmlega 30 jarðskjálftar mældust í þessari jarðskjálftahrinu en líklega er heildartalan í raun mun hærri. Vegna fjarlægðar frá SIL mælanetinu þá mælast ekki minnstu jarðskjálftarnir sem koma fram. Vegna fjarlægðar frá landi þá er ekki hægt að segja til um það hvað var að gerast á þessu svæði.

Lítil jarðskjálftahrina í Kolbeinsey

Í gær (08-Október-2017) kom fram lítil jarðskjálftahrina í Kolbeinsey. Það mældust aðeins þrír jarðskjálftar í þessari jarðskjálftahrinu en það er líklega vegna þess að þessi jarðskjálftahrina var langt frá landi sem gerir erfiðara að mæla þá jarðskjálfta sem þarna verða.


Jarðskjálftahrinan í Kolbeinsey er græna stjarnan á þessu korti. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Stærsti jarðskjálftinn í þessari jarðskjálftahrinu var með stærðina 3,1 og næst stærsti jarðskjálftinn var með stærðina 2,1. Síðan 10:33 í gær hefur ekki komið fram nein jarðskjálftavirkni þarna en það getur verið vegna fjarlægðar frá jarðskjálftamælaneti Veðurstofu Íslands. Það er því ekki hægt að útiloka að frekari jarðskjálftavirkni hafi orðið þarna.

Nýr jarðskjálftamælir Veðurstofu Íslands

Ég sá í fréttum að núna er Veðurstofan búin að setja upp jarðskjálftamæli í Bjarnarey rétt fyrir utan Vestmannaeyjar. Þessi jarðskjálftamælir eykur næmina á svæðinu umtalsvert og þýðir einnig að hægt er að mæla jarðskjálfta sem verða lengra suður af Íslandi en áður hefur verið. Veðurstofan hefur einnig fært til jarðskjálftamælinn í Vestmannaeyjum vegna þess að gamla staðsetningin var farin að verða fyrir truflunum af menningarhávaða.

Frétt af nýja jarðskjálftamælinum, Jarðskjálftamælir í Bjarnarey að frumkvæði Vinnslustöðvarinnar (eyjafrettir.is).

Jarðskjálftahrina í Kolbeinsey

Í gær (24-Maí-2017) og aðfaranótt 25-Maí-2017 var jarðskjálftahrina í Kolbeinsey. Stærstu jarðskjálftanir voru með stærðina 3,6 (tveir þannig) og síðan stærðina 3,5 en aðrir jarðskjálftar sem urðu voru minni að stærð. Enginn órói kom fram þegar þessir jarðskjálftar áttu sér stað en það útilokar ekki þann möguleika að kvikuinnskot hafi átt sér stað þarna. Hafi kvikuinnskot átt sér stað þarna, þá náði það ekki til yfirborðs. Kolbeinsey er langt frá jarðskjálftamælaneti Veðurstofu Íslands og er næsta SIL stöð í rúmlega 25 km fjarlægð en mun lengra er í næstu SIL stöðvar. Þessi fjarlægð gerir mjög erfitt að fylgjast með þessum jarðskjálftum og sjá hvað er að gerst en líklega mundi gosóri koma fram á jarðskjálftamælinum í Grímsey.


Grænu stjörnunnar sýna hvar jarðskjálftahrinan í Kolbeinsey varð. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Síðasta eldgos á þessu svæði varð árið 1755 en ekki er vitað nákvæmlega hvar það varð, síðasta eldgos sem vitað er hvar varð með einhverri vissu átti sér stað árið 1372 og varð norð-vestur af Grímsey. Það bendir til þess að eldstöðvarkerfi Kolbeinseyjar fari í áttina að Grímsey. Þessa stundina er engin mælanleg jarðskjálftavirkni í Kolbeinsey.

Kröftug jarðskjálftahrina rúmlega 80 km norður af Kolbeinsey

Aðfaranótt 26-Mars-2017 varð kröftug jarðskjálftahrina rúmlega 80 km norður af Kolbeinsey. Jarðskjálftahrinan varð rúmlega 250 km útaf strönd norðurlands. Það liggur ekki fyrir hvað er að gerast á þessu svæði, þar sem jarðskjálftavirkni á þessu svæði er hærri en vanalega síðustu mánuðina. Þessi jarðskjálftahrina er sú sterkasta sem hefur komið fram á þessu svæði hingað til.


Jarðskjálftahrinan eins og hún kemur fram á vef Veðurstofu Íslands. Grænar stjörnur eru jarðskjálftar stærri en 3,0. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Stærstu jarðskjálftarnir voru með eftirtaldar stærðir, jarðskjálfti með stærðina 4,6 (EMSC upplýsingar er að finna hérna), jarðskjálfti með stærðina 5,0 (EMSC upplýsingar er að finna hérna), jarðskjálfti með stærðina 4,8 (EMSC upplýsingar er að finna hérna). Þó svo að þessir jarðskjálftar hafi verið stórir, þá fundust þeir ekki upp á landi vegna fjarlægðar frá upptökum þessara jarðskjálfta. Það er einnig vegna fjarlægðar sem ekki er hægt að segja til um það hvort að eldgos sé að eiga sér stað, þó væri hugsanlega hægt að greina mjög stórt eldgos ef það yrði á þessu svæði. Eins og staðan er núna, þá hefur það ekki gerst ennþá.


Jarðskjálftinn með stærðina 5,0 eins og hann kom fram á jarðskjálftamælinum mínum í Böðvarshólum. Þessi mynd er undir Creative Commons leyfi, sjá nánar á CC leyfi.


Jarðskjálftinn með stærðina 5,0 eins og hann kom fram á jarðskjálftamælinum mínum í Heklubyggð. Þessi mynd er undir Creative Commons leyfi, sjá nánar á CC leyfi.

Það er ekki hægt að segja til um það hvort að jarðskjálftavirkni er ennþá í gangi á þessu svæði eða hvort að henni sé lokið vegna fjarlægðar frá næstu SIL jarðskjálftamælum Veðurstofu Íslands. Þar sem vegna fjarlægðar þá mælast ekki eða mjög illa þeir litlu jarðskjálftar sem verða í kjölfarið á svona jarðskjálftahrinu.

Áframhaldandi jarðskjálftavirkni langt norður af Kolbeinsey

Undanfarnar virkur hefur verið jarðskjálftavirkni langt norður af Kolbeinsey. Það er ennþá óljóst hvað er að valda þessari jarðskjálftavirkni á þessu svæði.


Jarðskjálftavirknin norður af Kolbeinsey (bláu hringirnir). Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Stærðir allra þeirra jarðskjálfta sem hafa mælst á þessu svæði eru vanmetnar vegna fjarlægðar frá SIL mælanetinu. Ég náði að mæla síðustu jarðskjálftahrinu sem varð á þessu svæði á jarðskjálftamælinn minn á norðurlandi. Þá komu fram fimm jarðskjálftar sem voru að minnsta kosti með stærðina 3,2 á 4 til 8 mínútu tímabili. Þetta voru einu jarðskjálftarnir sem ég náði að mæla í þessari jarðskjálftahrinu, enda er fjarlægðin rúmlega 230 km. Þessi fjarlægð veldur því að erfitt er að staðsetja jarðskjálftana nákvæmlega og finna út nákvæmlega hversu stórir þeir voru, meiri skekkja kemur einnig fram í staðsetningu jarðskjálftana og getur þar munað nokkrum tugum kílómetra.

Það er möguleiki á því að þarna sé eldgos í gangi núna. Það var þarna mögulega eldgos eða kvikuinnskot á þessu svæði eða nálægt því í Október árið 1999, hægt er að lesa um þá jarðskjálftahrinu hérna á vefsíðu Global Volcanism Program.

Smáskjálftavirkni á Íslandi þann 28-September-2016

Hérna er stutt grein um þá smáskjálftavirkni sem hefur átt sér stað á Íslandi þann 28-September-2016. Sumar af þessum jarðskjálftahrinum hófstu fyrir einhverjum dögum síðan og hafa verið í gangi fram til 28-September-2016.

Kolbeinsey

Þetta er stærsta jarðskjálftahrinan í þessu yfirliti. Þann 28-September-2016 varð kröftug jarðskjálftahrina í Kolbeinsey og þar urðu nokkrir jarðskjálftar sem voru með stærðina nokkuð yfir þrjá en vegna fjarlægðar frá jarðskjálftamælaneti Veðurstofunnar þá er erfitt að meta raunstærð og dýpi rétt. Síðasta eldgos sem átti sér stað í Kolbeinsey varð árið 1755 og hefur ekkert eldgos verið skráð síðan. Það geta hinsvegar hafa orðið eldgos þarna án þess að nokkur yrði þeirra var enda er svæðið langt frá landi og mjög afskekkt.

Austur af Grímsey (Tjörnesbrotabeltið)

Austan við Grímsey hefur verið lítil jarðskjálftahrina í gangi síðustu daga. Á svæði þar sem er hugsanlega eldstöð. Sú jarðskjálftahrina sem hefur verið í gangi síðustu daga virðist eiga uppruna sinni í flekahreyfingum á þessu svæði en ekki eldstöðvarvirkni, þar sem hreyfing Tjörnesbrotabeltisins á þessu svæði er 20mm á ári, rekhreyfingin á þessu sama svæði er aðeins 5mm á ári. Sjá mynd sem útskýrir þetta allt saman hérna (vedur.is).

160929_0025
Jarðskjálftahrinan á Tjörnesbrotabeltinu og í Kolbeinsey. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Suðurland (Suðurlandsbrotabeltið, SISZ)

Undanfarna vikur hefur lítil jarðskjálftahrina átt sér stað austan við Þjórsárbrú. Þetta hefur verið mjög lítil jarðskjálftahrina og stærstu jarðskjálftarnir aðeins náð stærðinni 2,1. Þetta er mjög lítil jarðskjálftahrina og bendir ekki til þess að stór jarðskjálfti sé á leiðinni. Þetta gætu verið eftirskjálftar af stóru jarðskjálftunum árið 2000 og 2008.

160929_0045
Jarðskjálftahrinan á Suðurlandi austan við Selfoss. Jarðskjálftahrinan er þar sem rauði bletturinn er. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Reykjanesskagi

Jarðskjálftahrina hófst á Reykjanesskaga þann 28-September-2016 nærri Fagradalsfjalli. Þetta var ekki stór jarðskjálftahrina og varð stærsti jarðskjálftinn með stærðina 2,1. Í þessari hrinu urðu 60 jarðskjálftar, þó svo þessi jarðskjálftahrina hafi ekki verið stór í stærð jarðskjálfta þá varð talsverður fjöldi af jarðskjálftum á þessu svæði.

160928_1425
Jarðskjálftavirknin á Reykjanesskaga. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Örlítið hefur verið um staka jarðskjálfta undanfarið án þess að nokkur frekari virkni eigi sér stað í kjölfarið. Það er ekki alveg ljóst afhverju svona jarðskjálftar verða. Þrátt fyrir að alltaf sé eitthvað um staka jarðskjálfta í hverri viku.

Jarðskjálftahrina langt norður af Kolbeinsey

Í dag (5-Júlí-2016) varð jarðskjálftahrina langt norður af Kolbeinsey. Það er ekki vitað fyrir víst hvað er að gerast á þessu svæði. Jarðskjálftavirkni hefur verið að aukast á þessu svæði undanfarna mánuði.

160705_1505
Jarðskjálftavirknin norður af Kolbeinsey. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Stærstu jarðskjálftarnir í þessari hrinu höfðu stærðina 2,9 – 3,4. Ekki er hægt að sjá góða stærð á þessum jarðskjálftum vegna fjarlægðar þeirra frá SIL mælaneti Veðurstofu Íslands. Hvað er nákvæmlega að gerast þarna er ekki vitað. Það er hugsanlegt að þarna sé eldgos að eiga sér stað. Þarna gæti hinsvegar einnig verið bara hefðbundin jarðskjálftahrina að eiga sér stað án þess að kvika eða eldgos komi þar nærri. Dýpi sjávar á þessu svæði er í kringum 3 til 5 km.

Jarðskjálftahrina ~125 norðan við Kolbeinsey

Þessi jarðskjálftahrina hófst einhverntímann í gær (09-Maí-2016) eða síðustu nótt (10-Maí-2016). Fyrsti jarðskjálftinn kom fram á mælum Veðurstofunnar um klukkan 01:03 UTC. Umrætt svæði er staðsett rúmlega 125 km norður af Kolbeinsey. Það er hugsanlegt að þarna hafi orðið eldgos á þessu svæði á síðustu árum (ég hef því miður ekki dagsetningu eða ár), einnig sem að eldgos á þessu svæði hefur ekki ennþá verið staðfest vegna fjarlægðar frá landi svo ég viti til. Það er mjög erfitt að vita nákvæmlega hvað er að gerast á þessu svæði núna. Jarðskjálftavirkni hefur verið að stíga undanfarin ár á þessu svæði.

160510_1345
Jarðskjálftahrinan norður af Kolbeinsey. Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Þetta svæði er fremur óþekkt og litlar mælingar hafa verið gerðar á því á undanförnum árum. Ég veit ekki nákvæmlega hversu mikið þetta svæði hefur verið kortlagt á undanförnum árum. Ég reikna með því að virkni muni halda áfram á þessu svæði á næstu dögum. Ef þarna verður eldgos, þá mun enginn taka eftir því vegna fjarlægðar frá næstu byggð (~200 km).

Styrkir

Ég vil endilega minna fólk á að styrkja mína vinnu. Það er hægt með tvennum hætti. Með því að styrkja mig beint með Paypal og síðan með því að versla í gegnum Amazon auglýsingarborðana sem ég er með uppi á síðunni, eða í gegnum Amazon vefverslun auglýsingarborðana sem þar er að finna. Takk fyrir stuðninginn. 🙂

Jarðskjálftar norðan við Kolbeinsey

Í dag (16-Mars-2016) urðu nokkrir jarðskjálftar rúmlega 110 km norðan við Kolbeinsey. Þarna eru ekki þekktar neinar eldstöðvar, hugsanlegt er að á þessari staðsetningu sé eldstöð til staðar en erfitt er að fá það staðfest með öruggum hætti. Núverandi jarðskjálftahrina virðist vera tengd rekvirkni í sigdal sem þarna er til staðar, frekar en einhverri jarðskjálftavirkni sem tengist eldstöð sem þarna gæti verið.

160316_1740
Jarðskjálftavirkni norðan við Kolbeinsey. Græna stjarnan sýnir staðsetningu stærsta jarðskjálftans. Jarðskjálfti með stærðina 3,0 varð einnig á Reykjaneshrygg (græn stjarna). Höfundaréttur þessar myndar tilheyrir Veðurstofu Íslands.

Stærsti jarðskjálftinn í þessari jarðskjálftahrinu var með stærðina 3,1. Hugsanlegt er að það mat sé vanmat vegna fjarlægðar jarðskjálftans frá SIL mælanetinu. Aðrir jarðskjálftar sem hafa mælst voru stærri, þó kom fram einn jarðskjálfti með stærðina 2,9 en hugsanlegt er að sá jarðskjálfti hafi í reynd verið stærri en 3,0. Mig grunar að meiri jarðskjálftavirkni hafi mælst þarna en hafi komið fram á jarðskjálftamælaneti Veðurstofunnar.